Fáir Norðurlandabúar gætu hugsað sér að flytja til Íslands eða Finnlands ef ættu kost á því að flytja búferlum til einhvers af Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í könnun, sem Norstat hefur gert í samvinnu við norræn ríkisútvörp. Flestir gætu hugsað sér að flytja til Svíþjóðar.
Aðeins 2% Norðmanna, 1% Svía, 3% Dana og 3% Finna segjast í könnuninni geta hugsað sér að flytja til Íslands, Hlutföllin eru svipuð varðandi Finnland en mun hærri varðandi hin Norðurlöndin. Þannig gæti 51% Dana, sem tók þátt í könnuninni, hugsað sér að flytja til Svíþjóðar og 49% Svía gætu hugsað sér að búa í Noregi. Ekki var leitað álits Íslendinga.
Á heimasíðu norska ríkisútvarpsins, NRK, eru vangaveltur um hvers vegna Finnland sé svona fráhrindandi. Þar er haft eftir Elinu Sajakorpi, framkvæmdastjóra finnsk-norsku menningarstofnunarinnar í Ósló, að finnsk sjónvarpsleikrit hafi gert Norðmenn fráhverfa Finnlandi. Einnig leiki torkennilegt tungumálið stórt hlutverk.