Vilja upplýsingar um alla óvenjuháa styrki

Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna hefur sent frá sér ályktun þar sem skorað er á aðra stjórnmálaflokka að veita upplýsingar um alla óvenjuháa styrki sem flokkurinn hafi þegið á undanförnum árum.  

Ályktunin fer í heild sinni hér á eftir.

„Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna telur að það sé rétt ákvörðun hjá forystu Sjálfstæðisflokksins að gefa upplýsingar um öll óvenjulega há fjárframlög sem flokkurinn hefur þegið á undanförnum árum. Ákvörðunin stuðlar að því að endurvekja traust á stjórnmálaflokka.
Ungir sjálfstæðismenn skora ennfremur á aðra stjórnmálaflokka að gera sambærilegar upplýsingar opinberar fyrir kosningar.

Stjórn SUS lýsir ánægju með að Geir H. Haarde, fyrrum formaður, hafi axlað ábyrgð á því að taka við óvenjulega háum fjárframlögum frá FL Group og Landsbankanum. Slík ábyrgð er því miður óalgeng í íslenskum stjórnmálum. Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna lýsir fullu trausti á núverandi forystu Sjálfstæðisflokksins til þess að búa svo um hnúta að fjármál hans þurfi ekki að vera tilefni til tortryggni. Stjórn SUS lýsir einnig fullu trausti á framkvæmdastjóra flokksins. Stjórn SUS telur að nú þegar fyrrverandi formaður hefur tekið ábyrgð á því að hafa samþykkt styrkina þá haldi Sjálfstæðisflokkurinn sínu striki, enda hefur hann ekkert að fela. Nú stendur það upp á aðra stjórnmálaflokka að fylgja fordæmi Sjálfstæðisflokksins.

Þórlindur Kjartansson, formaður SUS, segir:

„Þær fjárhæðir sem um ræddi voru slíkar að ekki hefði átt að taka við þeim. Að taka við þessum styrkjum voru mistök sem allir sjálfstæðismenn hljóta að harma. Ungir sjálfstæðismenn hafa talað fyrir því, og samþykkt m.a. á þingi okkar í Vestmannaeyjum sl. haust, að fjárframlög fyrirtækja til stjórnmálaflokka þurfi að vera opinber. Slíkt gagnsæi tryggir að kjósendur viti hvaða hagsmunatengsl eru til staðar hjá flokkunum og kemur í veg fyrir að flokkar taki við ofurframlögum."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka