Mannréttindi innantómt tal

Noordin Alazawi styttir sér stundir með því að semja tónlist …
Noordin Alazawi styttir sér stundir með því að semja tónlist og syngja. mbl.is/Ómar

Noordin Alazawi, 19 ára Íraki, ætlaði aldrei að koma til Íslands en var stöðvaður á leið sinni til Kanada. Síðan eru liðnir sjö mánuðir. Hann hefst við í kytru í Reykjanesbæ og bíður þess sem verða vill.

„Verði ég sendur til Grikklands þýðir það í raun að ég verð sendur heim til Íraks. Ég má ekki vera í Grikklandi. Ég kvíði því óskaplega enda er ástandið skelfilegt heima enda þótt sumir segi að það fari batnandi. Það mun taka langan tíma að lægja öldurnar eftir allt sem á undan er gengið í Írak – að minnsta kosti fimmtán til tuttugu ár. Þá fyrst yrði mér og fjölskyldu minni óhætt að snúa heim,“ segir hann.

Á íslenska kærustu

Noordin leist illa á Ísland í fyrstu enda þekkti hann ekki nokkurn mann. Það hefur breyst á undanförnum mánuðum. Hann er kominn með íslenska kærustu í Reykjanesbæ og á orðið marga vini. „Núna langar mig að vera hérna áfram en ég sé ekki fram á að það sé hægt. Það kemur fólk til viðræðna við mig á svo til hverjum degi en ekkert kemur út úr því. Yfirvöld hafa engan áhuga á mínu máli og aðhafast ekkert. Rauði krossinn á Íslandi getur heldur ekkert gert fyrir mig. Mér finnst eins og öllum standi á sama um mig. Ég er orðinn langþreyttur og suma daga líður mér svo illa að ég get ekki einu sinni borðað.“

Noordin kveðst ekki þurfa hjálp, bara vottaða pappíra sem gera honum kleift að stunda nám eða vinnu á Íslandi. „Ég þrái að halda námi mínu áfram. Mér gekk ágætlega í skóla heima í Írak. Ég veit að ég gæti unnið svart hérna en ég vil það ekki, það er ekki gott fyrir flóttamann að hafa það á ferilskránni.“

Noordin segir föður sinn heitinn, sem ferðaðist víða, hafa talað fallega um Evrópu. Reynsla sín sé önnur. „Þið Evrópubúar talið í sífellu um mannréttindi en það er bara innantómt tal. Þegar allt kemur til alls vitið þið ekkert um mannréttindi.“

Vill fá móður sína hingað

Verði Noordin veitt landvistarleyfi vonar hann að móðir hans og systir fái að koma hingað til hans. „Ég viðurkenni alveg að ég sakna mömmu minnar og systkina. Það er ekki auðvelt að vera einn í ókunnugu landi. Ég er bara nítján ára gamall.“

Sigríður Víðis Jónsdóttir blaðamaður hitti móður hans og systur að máli en þær eru flóttamenn í Sýrlandi. Í samtalinu kemur fram að fjölskyldunni hefur ítrekað verið hótað lífláti fyrir föðurlandssvik en faðir Noordins var myrtur í Írak. Móðirin vill ekki að Noordin fari aftur þangað. Þar sé honum ekki vært.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert