Meirihluti þeirra sem afstöðu tóku í könnun Fréttablaðsins vilja að reist verði álver í Helguvík. Alls sögðust 57,5% fylgjandi byggingu álvers en 42,5% sögðust andvíg.
Karlar voru líklegri til að styðja byggingu álvers en enginn munur var á afstöðu þeirra sem tóku þátt í könnuninni eftir búsetu. Mikill meirihluti þeirra sem sögðust ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn var hlynntur byggingu álvers, 80% og 85% stuðningsmanna Framsóknarflokksins voru hlynnt álverinu. 56% stuðningsmanna Samfylkingarinnar sögðust styðja álverið en 23% stuðningsmanna Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs.
Hringt var í 800 manns þriðjudaginn 7. apríl og skiptust svarendur jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir búsetu. Spurt var: Á að reisa álver í Helguvík. 83,6% tóku afstöðu til spurningarinnar.