Lágt settir og óreyndir starfsmenn sveitarfélaga í Wales, sem þekktu lítið sem ekkert til fjármálamarkaða, voru látnir fjárfesta milljóna punda af opinberu fé. Mikið af því fé var lagt inn á reikninga íslenskra banka í Bretlandi sem nú er óvíst að endurheimtist.
Þetta kemur fram í skýrslu sem bæjarráð Powyssýslu hefur látið gera um málið. Þar kemur fram að sveitarfélög og lögregluembætti í Wales hafi fjárfest um 66,4 milljónir punda, jafnvirði 12,4 milljarða króna, hjá íslenskum bönkum.
Í skýrslunni segir, að lánshæfismatskerfið, sem sveitarfélögin notuðust við, hafi verið nánast ónothæft og kerfisbundin fjármálamistök hafi verið gerð á nánast öllu sveitarstjórnastiginu.
Bæjarráðið í Powys átti sjálft um 4 milljónir punda á reikningum hjá Landsbankanum og Glitni þegar bankarnir féllu í október í fyrra.