Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sat ekki fund skipulagsráðs þegar fjallað var um deiliskipulag Fákssvæðisins í Víðidal, en Björk hélt því fram í samtal við Ríkissjónvarpið á dögunum að minnihlutinn í ráðinu hefði verið blekktur við afgreiðslu málsins.
Björk lét á síðasta fundi skipulagsráðs bóka að hún hefði í sjónvarpsviðtalinu tekið of sterkt til orða þegar hún talaði um blekkingar við afgreiðslu málsins á fundi 18. febrúar. Baðst hún afsökunar á orðum sínum. Björk sat sjálf ekki þennan fund, en fulltrúar Samfylkingar á fundinum voru Stefán Benediktsson og Guðrún Erla Geirsdóttir og samþykktu þau deiliskipulagið. Björk samþykkti deiliskipulagið án athugasemda í borgarráði 26. febrúar.
Þeir starfsmenn skipulags-og byggingarsviðs sem eiga fast sæti á fundum skipulagsráðs létu bóka að þau hömruðu að kjörinn fulltrúi skuli brigsla starfsfólki sviðsins um blekkingar. "Enginn fótur er fyrir slíku og hlýtur málið að teljast á misskilningi byggt. Allt starfsfólk skipulags- og byggingarsviðs leggur metnað sinn í að sinna kjörnum fulltrúum úr öllum flokkum af heilindum og tryggð. Með meiðandi fullyrðingum sem eiga sér ekki við rök að styðjast er vegið að þeim góða starfsanda og starfsgleði sem ríkir í skipulagsráði og því trausti sem hingað til hefur ríkt milli embættismanna og kjörinna fulltrúa. Er það miður.
Að lokum má spyrja sig að því hversvegna embættismaður með flekklausan í 15 ár hjá Reykjavíkurborg myndi vísvitandi blekkja skipulagsráð og leggja þannig allan sinn starfsferil og starfsheiður að veði."