Fengu meiri styrki árið 2006

Stjórnmálaflokkarnir fá 371,5 milljónir í styrki úr ríkissjóði í ár.
Stjórnmálaflokkarnir fá 371,5 milljónir í styrki úr ríkissjóði í ár.

Styrkir frá fyrirtækjum til stjórnmálaflokkanna námu hærri upphæð á árinu 2006 en á árinu 2007, en þá tóku gildi lög sem gerðu flokkunum skylt að upplýsa um styrki fyrirtækja til flokkanna.

Árið 2007 greiddu fyrirtækin í landinu 130 milljónir til stjórnmálaflokkanna; 56,9 milljónir fóru til Sjálfstæðisflokksins, 28,6 milljónir til Framsóknarflokksins,  23,5 milljónir til Samfylkingar,  16,9 milljónir til VG og 4,8 milljónir til Frjálslynda flokksins.

Eftir að upplýst var um háa styrki FL-Group og Landsbankans til Sjálfstæðisflokksins hafa flokkarnir birt upplýsingar um styrki frá fyrirtækjum sem námu hærri tölu en einni milljón króna. Þeir hafa þó flestir ekki látið koma fram hversu há heildartalan er frá fyrirtækjum. Samkvæmt upplýsingum frá Framsóknarflokknum á skírdag fékk flokkurinn 30,3 milljónir króna alls í styrki frá fyrirtækjum. 

Samtals námu styrkir þeirra fyrirtækja sem styrktu Sjálfstæðisflokkinn um meira en eina milljón 81 milljón króna á árinu 2006. Sambærileg tala fyrir Samfylkingu er 36 milljónir króna og 23,5 milljónir fyrir Framsóknarflokkinn. Ekki kemur fram með skýrum hætti hversu mikið fyrirtæki styrktu VG, en reikningar flokksins hafa þó verið birtir á heimasíðu flokksins undanfarin ár.

Á vef Samfylkingarinnar er birt yfirlit yfir fjármál flokksins á árunum 2001-2007 og má á því sjá með skýrum hætti að árið 2006 sker sig úr hvað varðar styrki og frjáls framlög. Á árunum 2001-2005 nemur þessi liður 2-9 milljónum árlega, en árið 2006 fer hann upp í 45 milljónir, en dettur svo aftur í tæplega 11 milljónir á árinu 2007.

Þær upplýsingar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur birt sýna að framlög fyrirtækja til flokksins voru mun hærri á árinu 2006 en árið 2007.

Á árinu 2007 samþykkti Alþingi að hækka framlög til stjórnmálaflokkanna úr 200 milljónum í 310 milljónir. Fjárlög í ár gera ráð fyrir að ríkissjóður styrki stjórnmálaflokkanna um 371,5 milljón króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert