Lið lagadeildar Háskólans í Reykjavík hafnaði í 5.-8. sæti í Willem C. Vis málflutningskeppninni sem haldin var í Vínarborg rétt fyrir páska. Alls tóku 233 háskólar alls staðar að úr heiminum þátt í keppninni en hún er ein stærsta málflutningskeppni sem haldin er á alþjóðavettvangi.
Auk fyrrnefnds árangurs fékk lið Háskólans í Reykjavík heiðursverðlaun fyrir varnarskjal liðsins og einn liðsmanna skólans, Hjördís Birna Hjartardóttir, fékk sömuleiðis heiðursverðlaun fyrir góða frammistöðu í málflutningi. Þess má geta að einungis um 10% þátttakenda í keppninni hlotnast slíkur heiður.
Keppnin snýst um að laganemendur útbúa sóknar- og varnarskjöl í tilbúnu ágreiningsefni, sem flutt er fyrir alþjóðlegum gerðardómi. Á leið sinni í 8-liða úrslit sló lagadeild HR meðal annars út lið frá University of New South Wales í Ástralíu, Queen Mary í Bretlandi og Árósaháskóla. Það var svo lið frá lagadeild Pune háskóla, sem er einn fremsti lagaháskóli Indlands, sem sló út lið HR í 8-liða úrslitum og fór það síðan alla leið í úrslitaleikinn, þar sem það laut í lægra haldi fyrir liði frá Victoria háskóla í Wellington, Nýja Sjálandi.