Hagstætt að ferðast til Íslands

Útlit er fyrir að Íslendingar verði áberandi á innlendum ferðamannastöðum …
Útlit er fyrir að Íslendingar verði áberandi á innlendum ferðamannastöðum í sumar mbl.is/RAX

Gengisþróun íslensku krónunnar undanfarna mánuði hefur gert það að verkum að samkeppnistaða Íslands í ferðaþjónustu hefur gjörbreyst. Ólíkt því sem áður var er Ísland nú orðið ódýrt í alþjóðlegum samanburði.

Á undanförnum 12 mánuðum hefur íslenska krónan veikst um 46% gagnvart helstu gjaldmiðlum og stendur raungengið afar lágt sögulega séð sem gerir það að verkum að ferðamaðurinn sem heimsækir Ísland nú borgar talsvert minna fyrir vöru og þjónustu heldur en hann gerði í heimsókn sinni fyrir einu ári síðan, að því er segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

Auk þess sem þessi mikli viðsnúningur verður til þess að stærri hópur fólks getur nú heimsótt Íslands heim hefur gengisþróunin einnig þau áhrif að þeir erlendu ferðamenn sem koma til landsins versla meira en vísbendingar þess efnis hafa  komið fram í aukningu á endurgreiðslu á virðisaukaskatti.

„Þrátt fyrir þessa gjörbreyttu samkeppnisstöðu Íslands í alþjóðlegum ferðamannaiðnaði hefur þessi breyting enn ekki náð að hafa sýnileg áhrif á fjölda erlendra gesta sem sækja Ísland heim. Fyrstu þrjá mánuði ársins heimsóttu 62 þúsund erlendir ferðamenn Íslands sem er fækkun um 6,5% frá sama tímabili síðasta árs þegar 66.200 erlendir gestir komu til Íslands.

Búast má við að breyting verði á þessu í sumar þegar ferðamannatímabilið hefst af fullum krafti. Engu að síður þarf að taka með í reikninginn að efnahagsaðstæður margra nágrannaríkja okkar hafa versnað mikið undanfarið og eru nú slæmar víða sem mun hafa áhrif á ferðalög og vafalaust koma til með að draga úr þeim," að því er segir í Morgunkorni.

Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir því að hluti þeirrar aukningar sem verður í innlendum ferðamannaiðnaði í sumar komi frá innlendum ferðamönnum. Vegna óhagstæðrar gengisþróunar og lágs raungengis fær hinn íslenski ferðamaður nú mun minna en áður fyrir krónur sínar í útlöndum.

„Þetta gæti orðið til þess að ferðalögum erlendis verði slegið á frest og innlent land lagt undir fót í staðinn enda fer best á að eyða íslensku krónunum hér heima eins og staðan er nú.

Ferðalög Íslendinga til útlanda hafa nú þegar dregist mikið saman á undanförnum mánuðum eða allt frá bankahruninu í október. Undanafarna sex mánuði hafa utanlandsferðir Íslendinga dregist saman um tæplega helming að meðaltali borið saman við sama mánuði árið áður.

Reyndar geta þeir Íslendingar sem ákveða að leggja land undir fót þrátt fyrir mikla veikingu krónunnar gert sér ferðalagið ögn léttbærara með því að haga seglum eftir vindi og velja áfangastaði eftir gjaldmiðlum en krónan er ekki eini gjaldmiðilinn sem hefur verið að veikjast undanfarna mánuði í alþjóðlegu efnahagskreppunni.

Ferðalangar sem leggja af stað með ferðasjóð í krónum skyldu þannig íhuga að ef þeir fara til Japan og/eða Bandaríkjanna að  japanska jenið er nú 70% dýrara gagnvart íslensku krónunni en fyrir ári síðan og dollarinn er 65% dýrari. Þá er nú um það bil 40% dýrara að fara til landa sem nota evruna en fyrir ári síðan og pundið og norska krónan eru 30% dýrara nú en fyrir ári.

Enn er þó hægt að finna gjaldmiðla sem hægt er að kaupa fyrir krónur án þess að þær tapi nálægt helmingi virðis síns en pólska slottið er nú aðeins 12% dýrara en fyrir ári síðan en sömu sögu er að segja um margar myntir í Austur- Evrópu enda hafa þær líkt og íslenska krónan átt verulega undir högg að sækja í hinni alþjóðlegu fjármálakreppu undanfarið," að því er segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert