Samþykkt var á Alþingi nú rétt í þessu að víkja frá þingsköpum til að þingfundir gætu haldið áfram fram yfir miðnætti. Nú stendur yfir umræða um hið umdeilda frumvarp til breytinga á stjórnskipunarlögum sem ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á að verði samþykkt. Sjálfstæðismenn hafa gagnrýnt frumvarpið harðlega.
Björn Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ítrekaði í ræðu rétt í þessu að þetta væri ekki meðal brýnustu mála sem þjóðin stæði frammi fyrir. Kvaðst hann undrast þá ákvörðun forseta Alþingis að halda áfram umræðum um það í stað þess að leita eftir samkomulagi um dagskrá þingsins þannig að afgreiða mætti mikilvægari mál. Björn sagðist aldrei samþykkja að Alþingi yrði vikið til hliðar sem stjórnarskrárgjafi íslensku þjóðarinnar.
Umræðan, þ.e. framhald á 2. umræðu, hófst um klukkan 15:15 og er líklegt að hún standi fram yfir miðnætti. Og líklega töluvert lengur.