Fyrirtækið Greenstone hefur svo gott sem tryggt sér samning við bandarísk stórfyrirtæki um notkun á gagnaveri hér á landi. Gætu framkvæmdir hafist strax í haust og gagnaverið tekið í notkun í janúar árið 2011. Greenstone hefur frá árinu 2007 unnið að undirbúningi á að reisa gagnaver á Íslandi. Forsvarsmenn fyrirtækisins áttu í dymbilvikunni árangursríka fundi með íslenskum stjórnvöldum og orkufyrirtækjum þar sem nýjasti samningur Greenstone var kynntur.
Ekki er gefið upp á þessu stigi hvaða viðskiptavinir þetta eru en þeir eru sagðir í hópi stærstu fyrirtækja í Bandaríkjunum. Greenstone er síðan í viðræðum við fleiri fyrirtæki um að velja Ísland undir hýsingu tölvugagna sinna og skjala. Orkuþörf gagnaversins, sem reist yrði í fyrsta áfanga, er 50 MW og gætu um 50 störf skapast. Byggingin verður engin smásmíði, eða 40-50 þúsund m2 að flatarmáli.
Greenstone hefur áform um að reisa fleiri gagnaver á næstu fimm árum sem gætu þurft á að halda alls um 300 MW og skapað 200-300 ný störf. Afleidd störf eru þá ótalin. Um milljarðatuga fjárfestingu er að ræða og hefur Greenstone tryggt sér fjármögnun á fyrsta áfanganum.
Forsenda fyrir þessu gagnaveri er lagning sæstrengs frá Bandaríkjunum til Íslands og mun Greenstone taka það að sér í samráði við bandaríska samstarfsaðila. Fyrir tengingu héðan og til Evrópu mun Greenstone semja við Farice og eru þær viðræður langt komnar. Sé allt saman tekið, kostnaður við 5-6 gagnaver, lagning sæstrengja og fjárfestingar í öðrum tækjabúnaði, er þetta dæmi upp á um 200 milljarða króna.
Henk Wiering, stjórnarmaður hjá Greenstone, segist í samtali við Morgunblaðið vera mjög sáttur við þau viðbrögð sem stjórnvöld, orkufyrirtæki og aðrir aðilar hér á landi hafa sýnt verkefninu. Ljóst sé að gagnaver muni skipta Íslendinga gríðarmiklu máli við uppbyggingu atvinnulífsins og sköpun nýrra starfa. Stjórnvöld geri sér vel grein fyrir þessu og styðji verkefnið.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.