Nær helmingur þingmanna á Alþingi er skráður í hlutafélagaskrá sem stjórnarformaður, prókúruhafi, framkvæmdastjóri, endurskoðandi, meðstjórnandi eða varamaður í stjórn. Fyrir utan eignarhald í fyrirtækjum eru þingmenn tengdir 55 fyrirtækjum skráðum í Hlutafélagaskrá. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Creditinfo.
Flest fyrirtæki sem þingmenn tengjast eru í ÍSAT-flokkunum „Fasteignaviðskipti“ og „Fjármálaþjónustu annarri en vátryggingastarfssemi.“
Fyrir rúmu ári síðan voru 34 þingmenn tengdir fyrirtækjum með hluthafaþátttöku sinni. Þeim hefur því fækkað um 4 þingmenn frá 1.janúar 2008.
Fjöldi fyrirtækja sem þingmenn tengjast eru nokkuð færri nú en fyrir ríflega ári síðan, en þá tengdust þingmenn 70 fyrirtækjum.
Þingmenn allra stjórnmálaflokka eru skráðir með tengsl við félög.
Niðurstöður sýna að 17 af 26 þingmönnum Sjálfstæðisflokks eru skráðir í stjórn félaga, með prókúru, skráðir framkvæmdastjórar, endurskoðendur eða varamenn. Af 17 mönnum Samfylkingarinnar eru 7 þeirra tengdir fyrirtækjum, þrír þingmenn Vinstri Hreyfingarinnar græns framboðs, fjórir þingmenn Framsóknarflokksins og þrír þingmenn Frjálslynda flokksins.
Skýrslan ber heitið Þátttaka þingmanna í atvinnulífinu og var unnin að beiðni Fréttablaðsins.