Hóta að aflífa hreindýrskálf

Dagbjört Briem Gísladóttir og Líf.
Dagbjört Briem Gísladóttir og Líf. mbl.is/Albert Kemp

Dagbjörtu Briem Gísladóttur, bónda á Sléttu utan við Reyðarfjörð, finnst sem Umhverfisstofnun hafi sýnt henni lítilsvirðingu með því að hóta að aflífa hreindýrskálfinn Líf. Dagbjört hefur fóstrað Líf frá því í fyrravor þegar hann fannst yfirgefinn af móður sinni við vegarkant.

Að sögn Dagbjartar hringdi starfsmaður Umhverfisstofnunar í mann hennar fyrir þremur vikum og benti á að þau þyrftu leyfi umhverfisráðuneytisins ef þau ætluðu að halda dýrið áfram.  „Við báðum um umsóknargögn og fengum þá svona hótunarbréf. Í því er vitnað í lagagreinar um handsömun villtra dýra fyrir dýragarða og söfn eða vegna rannsókna og undaneldis. Í bréfinu segir að á Sléttu sé vistað hreindýr sem ekki hafi fengist leyfi fyrir samkvæmt þessum lagagreinum. Þessar lagagreinar eiga ekki við í þessu tilfelli. Við vorum bara að bjarga dýrinu sem var að dauða komið,“ segir Dagbjört

Karl Karlsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir það alls ekki hafa verið ætlunina að valda sárindum með bréfinu þótt skrifað hafi verið að dýrið skyldi aflífað yrði ekki sótt um leyfi fyrir því. „Þar sem við vitum af þessum kálfi er ekki hægt annað en að benda formlega á lögin. Ef þau ætla að halda kálfinn áfram verða þau að sækja um leyfi. Neiti ráðuneytið um leyfi mun það væntanlega útskýra hvað það vilji að gert verði."

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka