Íbúðalánasjóður leigir út 34 íbúðir

mbl.is/Arnaldur

Íbúðum sem Íbúðalánasjóður (ÍLS) hefur leyst til sín á uppboðum hefur fjölgað síðustu mánuði. Um síðustu mánaðamót átti sjóðurinn 239 íbúðir, en þær voru 196 talsins um áramótin og 103 í september. Ef litið er á síðustu fimm ár þá átti sjóðurinn 116 íbúðir í byrjun árs 2005, 43 íbúðir ári síðar, 52 íbúðir í byrjun árs 2007 og 82 íbúðir í ársbyrjun 2008.

Fyrstu þrjá mánuði ársins keypti sjóðurinn 57 íbúðir á nauðungaruppboðum, en á sama tíma voru fjórtán íbúðir seldar. ÍLS hefur átt íbúðirnar 239 mismunandi lengi, eina frá því árið 2003, aðra frá 2006, 40 íbúðir frá árinu 2007 og hinar frá árunum 2008 og 2009. Athygli vekur hversu margar þessara íbúða eru á landsbyggðinni. Af íbúðunum 239 eru 15 á höfuðborgarsvæðinu en 67 á Austurlandi og 44 á Suðurnesjum, svo dæmi séu tekin.

Af íbúðum sem nú eru í eigu ÍLS eru 70 órýmdar. Þar af eru 34 íbúðir leigðar út af sjóðnum, en 36 íbúðir eru á rýmingarfresti. 169 íbúðir eru auðar og margar þeirra eru komnar í sölu eða á leið í sölu. Samkvæmt upplýsingum frá sjóðnum gengur sala þokkalega en þó hægt í samræmi við ástandið á fasteignamarkaði. Betur gangi að selja íbúðir úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu.

ÍLS er ekki alltaf með fyrsta veðrétt í íbúðum, en alltaf er farið eftir reglum um lánveitingar sjóðsins. Það er að öll lán sem eru á undan í veði ásamt lánum ÍLS rúmist innan reglna ÍLS um hámarkslán. Fasteignasölur annast sölu íbúða fyrir sjóðinn og er þessi þjónusta boðin út. Fyrstu þrjá mánuði þessa árs bárust 942 umsóknir vegna greiðsluerfiðleika til ÍLS. Úrræði vegna greiðsluvanda geta t.d. verið skuldbreyting vanskila, frestun á greiðslum og lenging lána. Allt árið í fyrra voru umsóknir vegna greiðsluerfiðleika 1405, en 377 í hitteðfyrra.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka