Lögreglumenn eru komnir upp á efri hæð hússins við Vatnsstíg 4. Notast var við vélsög til að saga rúm, vörubretti og annað sem hústökufólk hefur sett í veg fyrir. Óvíst er hversu margir eru í húsinu, en þeir hrópa slagorð út um glugga hússins.
Lögreglumenn komu á staðinn fyrir klukkan átta í morgun. Eftir að hafa metið aðstæður fóru þeir bakdyramegin inn. Þeir þurftu að brjóta sér leið inn en hústökufólk hafði komið fyrir slagbrandi. Hústökufólkið hefur kastað ávöxtum, jógúrt og ýmsum lausamunum í lögregluna. Einnig gera þeir að lögreglumönnum köll.
Til ryskinga kom og voru þrír handteknir fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglunnar.
Lögregla fer sér rólega og saga sér leið upp á efri hæð hússins. Að sögn sjónvarvotta er hústökufólk úti í gluggum og veifar til áhorfenda.
Meðal þess sem kallað hefur verið út um gluggann, er að lögregla hafi notað gasúða sinn inni í húsinu. Hústökufólk heldur því fram að lögregla hafi borað gat á gólfið og sprautað upp til hústökufólksins. Það hefur ekki fengist staðfest.