Ósátt við yfirlýsingar um kjaraskerðingu

Miðstjórn Bandalags háskólamanna segir, að yfirlýsingar ráðamanna um lækkun launa opinberra starfsmanna séu marklausar meðan upplýsingar um stöðu ríkissjóðs fáist ekki. Er þar vísað til ummæla Katrínar Jakobsdóttur, menntamálaráðherra, á borgarafundi í gærkvöldi um að VG vilji frekar lækka laun opinberra starfsmanna en segja upp fólki í velferðarþjónustu.

Í tilkynningu frá BHM segir, að háskólamenntaðir opinberir starfsmenn hafi orðið fyrir umtalsverðri kaupmáttarskerðingu á undanförnum misserum. Því til viðbótar hafi víða verið gerðar breytingar á vinnuskipulagi sem skerði kjör svo nemi tugum prósenta í sumum tilfellum. Fyrir hafi þessi hópur verið með 20 – 30 % lægri laun en sambærilegir hópar á almennum vinnumarkaði.

„Opinberir starfsmenn innan Bandalags háskólamanna standa frammi fyrir verkefnaaukningu fremur en skorti.  Því mun hvers kyns samdráttur kjara koma fram í auknu álagi á starfsfólk  Yfirlýsingar um lækkun launa opinberra starfsmanna eru marklausar meðan upplýsingar um stöðu ríkissjóðs fást ekki. Launakostnaður ríkisins er um 23% af heildarútgjöldum og lækkun launa starfsmanna þess myndi því duga skammt til að leysa fjárhagsvandann," segir í tilkynningu BHM.

Þá segir bandalgið, að í síðustu tvennum kjarasamningum hafi vægi háskólamenntunar í launum  minnkað. Frekari þróun í þá átt ógni atvinnuþátttöku háskólamenntaðra á Íslandi. Þessu til viðbótar sé talað um skattabreytingar og auknar tekjutengingar sem samkvæmt reynslu bitni harðast á millitekjuhópum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert