Fagráð um kynferðisbrot innan þjóðkirkjunnar telur að kirkjan hafi sett sér strangari reglur en dómstólar eru tilbúnir að dæma eftir. Því eigi séra Gunnar Björnsson ekki að taka við Selfossprestakalli að nýju 1. júní nk. líkt og Biskupsstofa hefur tilkynnt.
„Við höfum fylgst glöggt með málinu frá því að við vísuðum því til barnaverndarnefndar,“ segir séra Gunnar Rúnar Matthíasson, formaður fagráðs um kynferðisbrot innan þjóðkirkunnar. Fagráðið hafi kynnt sér hæstarréttardóminn ítarlega og óskað eftir fundi með biskupi í kjölfarið. „Hann fengum við þó ekki fyrr en eftir að biskup var búinn að gefa út yfirlýsingu um að séra Gunnar ætti að fara aftur í embætti og því höfum við mótmælt.“
Gunnar Rúnar segir fagráðið hafa skrifað biskupi bréf í framhaldi fundarins. „Þar fórum við fram á að embættið tæki þau atriði sem í dóminum eru sýnd viðurkennd og sönnuð og sendi þau til úrskurðarnefndar þar sem við teljum að kirkjan hafi sett sér strangari reglur en löggjafinn er tilbúinn að dæma eftir til refsingar.“ Fagráðið telji að þar standi út af viðurkennd atriði – presturinn hafi rofið persónumörk og óréttlætanleg hlutverkavíxlun hafi átt sér stað er presturinn leitar huggunar hjá minni máttar aðila, í þessu tilviki barni.
Bréfið var sent biskupsembættinu 27. mars sl. og hefur fagráðið, að sögn Gunnars Rúnars, ekki fengið formleg viðbrögð frá embættinu og veit hann því ekki hvar málið er statt í ferlinu.