Kristín Jóhannsdóttir, markaðsfulltrúi Vestmannaeyjabæjar, hefur fyrir hönd bæjarins sótt um leyfi til Surtseyjarstofu að fá að flytja um hundrað ferðamenn út í Surtsey í sumar. Surtsey er á heimsminjaskrá og hefur verið friðuð síðan 1965 í þágu rannsókna en hugmyndin er að flytja ferðamennina með þyrlu frá Heimaey.
Blaðið Fréttir hefur eftir Kristínu, að með umsókninni sé ekki verið að ógna lífríki Surtseyjar. „Töfraorðið í ferðaþjónustu í dag er nýsköpun, og ef þetta er ekki öflug nýsköpun þá veit ég ekki hvað," sagði Kristín. „Þarna sé ég borðleggjandi tekjulind fyrir Vestmannaeyjabæ. Fyrir liggja metnaðarfullar áætlanir um uppbyggingu Eldheima/Pompei norðursins með Surtseyjarsýningu og jarðsögu Vestmannaeyja. Fjármagnið, sem fengist af þessari takmörkuðu opnun Surtseyjar, nýtist vel til að fjármagna þessa uppbyggingu nú á þessum síðustu og verstu tímum þegar erfitt er að fá peninga til allra menningarverkefna."
Kristín segir að hugmyndin sé að fara 4-5 sinnum í eyjuna með 20 manns í hvert skipti. Ferðalangarnir yrðu að undirgangast strangar umgengnisreglur og ekki yrði stoppað lengi í eynni í hvert skipti.
„Ég er þess fullviss að hægt er að bjóða upp á svona ferðir fyrir fólk, sem er tilbúið til að greiða hátt verð fyrir að upplifa eitthvað einstakt. Markaðurinn fyrir þessar ferðir er fyrst og fremst erlendis, þannig að þetta getur orðið mikilvæg gjaldeyristekjulind."