Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á sjötugsaldri í 15 mánaða fangelsi fyrir alvarlegt kynferðisbrot gegn 14 ára þroskaheftri stúlku.
Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafði móðir stúlkunnar samband við lögreglu síðdegis föstudaginn 29. febrúar 2008 og greindi frá grun um að 14 ára þroskaheft dóttir hennar, hefði hitt tvo karlmenn á miðvikudeginum 27. febrúar 2008 og að mennirnir hefðu haft samræði við dóttur hennar. Í frásögn móðurinnar kom fram að fyrr á miðvikudeginum hafði stúlkan látið sig hverfa á brott af heimili móður sinnar og í framhaldinu fór fram skipuleg leit að stúlkunni. Hún fannst um fimm klukkustundum síðar á bensínstöð Olís við Gullinbrú í Reykjavík. Þá höfðu brotin verið framin gegn henni í heimahúsi í Grafarvogi.
Tveir menn voru ákærðir í málinu en annar mannanna var sýknaður. Hann var ákærður fyrir að hafa ásamt hinum dæmda sýnt stúlkunni klámmynd og fyrir að hafa haft samræði við stúlkuna.
Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur segir að sá hængur sé á máli að myndbandið sem mennirnir hafa viðurkennt að stúlkan hafi séð í íbúðinni, liggi ekki fyrir í gögnum málsins. Þá liggi ekki heldur fyrir að rannsókn hafi farið fram á myndbandinu sem leiði í ljós hvers kyns athafnir hafi verið á myndbandinu. „Úr því að myndband þetta liggur ekki fyrir dóminum eða niðurstaða rannsóknar lögreglu á athöfnum á myndbandinu, verður ekki hjá því komist að sýkna ákærðu báða af því að hafa sýnt stúlkunni klámmynd,“ segir í dómsorði.
Báðir ákærðu neituðu frá upphafi að hafa haft samræði við stúlkuna. Dómurinn segir að sú staða sé því uppi að staðfastur framburður ákærðu um samræði gangi gegn eindregnum framburði stúlkunnar. Í málinu njóti við engra annarra sönnunargagna um þetta efni sem stutt geta framburð stúlkunnar. „Þó svo framburðir ákærðu séu að sumu leyti á reiki og með innbyrðis misræmi, dugar það eitt og sér ekki til að telja sök á þá sannaða. Með hliðsjón af þessu verða ákærðu sýknaðir af sakargiftum samkvæmt öðrum tölulið ákæru [samræði við stúlkuna],“ segir í dómsorði.
Héraðsdómur sakfelldi hins vegar 63 ára karlmann fyrir alvarleg kynferðisbrot gegn stúlkunni. Maðurinn hafði önnur kynferðismök en samræði við stúlkuna, þá 14 ára. Maðurinn neitaði sök en viðurkenndi að hafa viðhaft kynferðislegar athafnir með stúlkunni.
Í niðurstöðu héraðsdóms segir að maðurinn hafi verið sakfelldur fyrir alvarlegt kynferðisbrot gagnvart stúlku sem var 14 ára þegar brotið var framið. Hann eigi sér engar málsbætur. Þá segir að nýverið hafi verið gerðar breytingar á XXII. kafla hegningarlaga til að kveða á um að mál þessi verði tekin fastari tökum en áður. Brot mannsins varði nú fangelsi að lágmarki 1 ár en að hámarki 16 ár.
„Ákærði hefur fullframið brot gegn framangreindu ákvæði og eru engin sérstök atvik í málinu er draga úr alvarleika háttseminnar eða eru til þess fallin að lækka refsingu. Hefur löggjafarvaldið metið það sem svo að hlutrænt séð sé það alvarlegt brot að hafa kynferðismök við barn yngra en 15 ára,“ segir í dómsorði.
Maðurinn var dæmdur í 15 mánaða fangelsi og voru ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna að neinu leyti. Þá var manninum gert að greiða stúlkunni 700 þúsund krónur í skaðabætur.