ESB aðild samofin endurreisninni

Salurinn var þéttskipaður á fundi Samfylkingarinnar um efnahagsmál.
Salurinn var þéttskipaður á fundi Samfylkingarinnar um efnahagsmál. mbl.is/Ómar

Spurningin um ESB aðild er samofin allri endurreisnaráætlun Samfylkingarinnar, sagði Aðalsteinn Leifsson forstöðumaður á fundi flokksins um efnahagsmál. Benti hann enn fremur á að fólk af breiðum vettvangi þjóðfélagsins hefði sett niður áætlun til að greina vandann og setja niður endurreisnaráætlun Samfylkingarinnar.

„Við höfum í grundvallaratriðum val um tvennt, hraða uppbyggingu eða lokað haftahagkerfi," sagði Aðalsteinn. Eflaust væri hægt að byggja upp vegferð hægt og bítandi sem að fjölskyldurnar í landinu þurfi að greiða fyrir.

Fyrsta skrefið að hraðari uppbygingu sé hins vegar umsókn um ESB aðild. „Um leið og við sækjum um aðild þá stígum við fyrsta og mikilvægasta skrefið í þá átt að vinna okkur út úr þeim vanda sem að við erum í núna, í átt að stöðugu gengi og lækkuðu vaxtastigi. Með því sé stigið skref í áttina að langtímastöðugleika. Ferli ESB fyrir upptöku evru sé enginn tilviljun, ekki sé hægt að stytta sér leið að metnaðarfullum markmiðum. „Aðildaviðræður Íslands yrðu hins vegar einstakar fyrir það að við höfum þegar tekið yfir 75% af reglum innri markaðarins."

Sá hræðsluáróður sem rekin hafi verið gegn ESB aðild vegna sjávarútvegsins eigi heldur ekki rétt á sér. „Eins og reglur sambandsins eru í dag, án nokkurrar kröfu um undanþágu, þá byggir úthlutun veiðiheimilda Íslendinga á sögulegum veiðirétti og samkvæmt reglum ESB eiga engir nema Íslendingar rétt á veiðiheimildum í íslenskri lögsögu." Það séu því sterk lagaleg og hagfræðileg rök fyrir því að við getum náð góðum árangri í þessum samningum.

Katrín Ólafsdóttir lektor benti þá á að ástand efnahagsmála nú væri mjög svart. Enda um margt ólíkt nokkru sem að við höfum séð áður. „Ég þurfti að fara aftur til 1926 til að finna svipaðar tölur í samdrætti í landsframleiðslu,“ sagði hún.

Vandinn nú sé hins vegar annar. Nú séum við t.d. að horfa á atvinnuleysistölur sem að við höfum aldrei séð. Í gær hafi atvinnuleysi mælst 8,9%. „Það er staður sem að við höfum aldrei verið á áður.“ Tekjur fólks hrapi þá einnig í niðursveiflunni nú á sama tíma og gjöldin aukist. Þær tölur séu líka ólíkar þeim sem að við höfum áður séð. Svarið liggi að hennar mati í áætluninni sem gerð var með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. „Ég tel að þetta geti náðst á fjórum árum, en það gríðarmikið verk sem ljóst er að við munum öll finna fyrir.“

Að mati Stefáns Ólafssonar prófessors er mikilvægt að jafnaðarmenn og jafnaðarsjónarmið séu ráðandi á tímum sem þessum er dreifa þarf byrðunum. Benti Stefán á góða sambúð velferðarríkisins og markaðarins á Norðurlöndunum máli sínu til staðferstingar.

Lífskjaravandinn sem að við tökumst á við nú væri hins vegar þrenns konar - atvinnuleysi, skuldabyrði og kjaraskerðing og væru þeir tveir fyrstu einna alvarlegastir enda væru þessi hópar í hvað mestum vanda. Alvarlegra væri þó þegar fleiri enn eitt ofangreindra atriða færu saman hjá sömu fjölskyldunni.

Margar þeirra aðgerða sem að þegar hefði verið gripið til væru gagnlegar. Hækkun vaxtabóta væri t.d. klæðskerasniðið úrræði sem að hitti beint í mark. Telur Stefán raunar að vaxtabæturnar þurfi að hækka enn meira. „Það er ekki dýr aðgerð í öllu samhengi,“ sagði Stefán sem er einnig þeirrar skoðunar að leiðrétta eigi grundvöll vísitölubindingarinnar. Huga þurfi þá að hærri skattþrepum og gæta þess að sofna ekki á velferðarvaktinni, heldur meta stöðugt árangur og framvindu þessara aðgerða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert