Samtök atvinnulífsins segja, að á síðustu 45 árum, frá 1963-2008, hafi landsframleiðsla aukist að jafnaði um 3,9% á ári og störfum fjölgaði um 2%. Hverri prósentu í hagvexti hafi þannig fylgt fjölgun starfa um hálft prósent. Samkvæmt þessu þarf landsframleiðslan að vaxa um tæpan fjórðung fram til ársins 2015 til þess að störfum fjölgi um 20.000 í samræmi við áætlaða fólksfjölgun.
„Að því gefnu að landsframleiðslan minnki um 10% á þessu ári og að enginn hagvöxtur verði á næsta ári þá þarf hagvöxtur að vera 4,5% árlega að jafnaði á árunum 2011-2015 svo þetta markmið náist. Full atvinna næst ekki með öðrum hætti að því gefnu að jafnvægi verði í búferlaflutningum til og frá landinu á komandi árum," segir í fréttabréfi Samtaka atvinnulífsins í dag.