Mikið er um undirboð á byggingamarkaðnum um þessar mundir, að sögn Finnbjörns A. Hermannssonar, formanns Samiðnar, sambands iðnfélaga.
„Menn bjóða mjög grimmt niður verk og það er kvartað yfir að það sé varla hægt að taka þátt í útboðum í dag,“ segir Finnbjörn. Hann segir slegist um öll verkefni sem boðin séu út, sama hve lítilfjörleg þau séu. Finnbjörn telur þetta eiga við um byggingagreinar almennt.
„Því miður virðast ekki gilda nein lögmál í þessu. Menn nota öll meðul sem hægt er að nota,“ segir Finnbjörn. Hann segir að svo virðist sem útboðsreglurnar reynist haldlitlar þegar á reyni í samkeppninni um verkefnin. Finnbjörn kveðst óttast að undirboðin komi helst niður á launaliðnum. Menn gætu lítið breytt efniskostnaði og þá væri vinnuliðurinn einn eftir til að lækka útboðsverðið. Félagar í Samiðn lentu verst í því.
Finnbjörn telur að ákvörðun um fulla endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu á byggingarstað, sem m.a. nær til viðhalds húsa, hafi verið mjög til bóta. Hann telur þó að þessi eftirgjöf sé ekki alveg farin að skila sér í aukinni vinnu byggingarmanna.
„Það er ekki komin jafn mikil hreyfing á viðgerðamarkaðinn og ég hefði ætlað að yrði við svona breytingu,“ segir Finnbjörn. Hann kveðst ekki átta sig á því hvað ylli töfinni. Þar gæti bæði tíðarfarið haft áhrif eða að fólk ætlaði aðeins að bíða og sjá til. „Ég er að vonast til að þetta fari af stað með vorinu,“ segir Finnbjörn.