Fjölbreytt verkefni tengd sjávarútvegi

Þorsteinn Gunnarsson og Steingrímur J. Sigfússon undirrituðu samninginn.
Þorsteinn Gunnarsson og Steingrímur J. Sigfússon undirrituðu samninginn. HA

Háskólinn á Akureyri og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið undirrituðu í dag samning um stofnun sjávarútvegsmiðstöðvar við Háskólann á Akureyri. Meðal verkefna miðstöðvarinnar verður að annast rannsóknir á sjávarútvegi í eigin nafni.

Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, undirrituðu samninginn. Kennsla í sjávarútvegsfræðum hófst við Háskólann á Akureyri árið 1990 og hefur verið kennd samfellt síðan. Undirritunin fór fram í rannsóknarhúsinu Borgum. Það hýsir jafnframt samstarfsstofnanir á sviði sjávarútvegs svo sem Matís og Hafrannsóknastofnun.

Að lokinni undirritun kynnti Hreiðar Þór Valtýsson, lektor við sjávarútvegsfræði í HA tilgang og verksvið Sjávarútvegsmiðstöðvarinnar en hann mun veita henni forystu. Hreiðar ræddi einnig stöðu sjávarútvegs hér á landi og hin fjölmörgu tækifæri sem í greininni leynast. Framamenn í sjávarútvegi og frambjóðendur stjórnmálaflokka tóku einnig til máls.

Helstu verkefni Sjávarútvegsmiðstöðvarinnar verða að:
• Afla og miðla upplýsingum um sjávarútveg milli fyrirtækja og samstarfsaðila.
• Stuðla að samvinnu við innlendar og erlendar vísindastofnanir á sviði sjávarútvegs.
• Auka tengsl atvinnulífs og skóla með nemendaverkefnum í samvinnu við fyrirtæki.
• Annast rannsóknir á sjávarútvegi í eigin nafni.
• Safna upplýsingum um sjávarútveg í gagnagrunn sem nýtist í rannsóknum.
• Standa fyrir ráðstefnum, umræðufundum, námskeiðum, fyrirlestrum og annarri fræðslustarfsemi.
• Stuðla að nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi í sjávarútvegi.
• Standa fyrir útgáfu rita og söfnun bóka, tímarita og annars efnis um sjávarútveg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert