Þrátt fyrir mikla fækkun banaslysa og minniháttar slysa árið 2008 þá hefur átt sér stað aukning í fjölda alvarlegra slysa. Þetta má meðal annars lesa í nýútkominni slysaskýrslu Umferðarstofu fyrir árið 2008.
Í skýrslunni segir að árið 2008 hafi í flesta eða alla staði verið betra en árið 2007 hvað varðar fjölda slysa. Árangurinn er þó ekki ásættanlegur eða góður sé hann borinn saman við lengra tímabil og þau markmið sem sett hafa verið í baráttunni gegn umferðarslysum. Það markmið umferðaöryggisáætlunar stjórnvalda til ársins 2016 að samanlagður fjöldi látinna og alvarlega slasaðra í umferðinni lækki að jafnaði um 5% á ári er ekki að nást.
Heildarfjölda umferðarslysa fækkar um 5,3%
Heildarfjölda slysa og slasaðra fækkar á milli áranna 2007 og 2008. Slysum með meiðslum fækkar úr 1147 í 1085 eða um 5,4%. Alvarlega slösuðum fjölgar hins vegar úr 195 í 200 (+2,6%) en lítið slösuðum fækkar úr 1463 í 1373 sem er 6,2% fækkun. Heildarfjöldi slasaðra og látinna fækkar úr 1673 í 1585 eða um 5,3%.
Fjöldi banaslysa í sögulegu lágmarki
12 manns létu lífið í umferðinni í fyrra, tíu Íslendingar, einn Japani og einn Pólverji. Einungis einu sinni hafa færri látist í umferðinni á einu ári síðan árið 1970. Það var árið 1996 en þá létu 10 manns lífið. Á árunum 1999 – 2008 létust að meðaltali 23 í umferðarslysum á Íslandi en það er u.þ.b. 90% fleiri en létust í fyrra.
Samanburður við hin Norðurlöndin
Árið 2008 er annað árið í röð þar sem Ísland er með lægstu dánartíðni í umferðarslysum á Norðurlöndum miðað við fólksfjölda. Banaslysum fækkar á milli ára hjá öllum Norðurlöndunum nema hjá Norðmönnum. Markmið Evrópusambandsins hefur verið að fækka dauðsföllum í umferðinni um 50% á árunum 2001-2010. Nú er aðeins eitt ár eftir af því tímabili og ekkert bendir til þess að það markmið náist. Íslendingar sem og aðrir Norðurlandabúar hafa náð vissum árangri en þó ekki nægjanlega miklum til að fyrrnefnt markmið náist. Taka þarf tillit til þess að vegna fámennis hér á landi eru mun meiri sveiflur hvað varðar fjölda banaslysa en í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Eitt slys hefur hlutfallslega mun meiri áhrif á heildarfjölda hér á landi en á hinum Norðurlöndum.