Atvinnuleysi mest meðal ungs fólks

Á fyrsta ársfjórðungi 2009 voru að meðaltali 12.700 manns án vinnu og í atvinnuleit eða 7,1% vinnuaflsins. Að sögn Hagstofunnar mældist atvinnuleysi 9,2% hjá körlum og 4,8% hjá konum. Þegar litið er til aldurs var atvinnuleysið mest meðal fólks á aldrinum 16-24 ára, eða 12,6%. Frá fyrsta ársfjórðungi 2008 til fyrsta ársfjórðungs 2009 fjölgaði atvinnulausum um 8.500 manns.

Á fyrsta ársfjórðungi 2008 voru að meðaltali 4200 atvinnulausir og mældist atvinnuleysi 2,3%. Atvinnuleysi mældist þá 2,5% hjá körlum og 2,2% hjá konum. Atvinnuleysi var mest meðal fólks á aldrinum 16-24 ára eða 6,5%.

Þeim sem hafa leitað að vinnu í einn mánuð eða meira hefur fjölgað frá fyrsta ársfjórðungi 2008 úr 1700 í 9900 á fyrsta ársfjórðungi 2009, eða um 8200. Á fyrsta ársfjórðungi 2009 leituðu 77,3% atvinnulausra að starfi einn mánuð eða lengur en 42,5% á fyrsta ársfjórðungi 2008.

Atvinnulausir teljast þeir sem ekki hafa atvinnu í viðmiðunarviku könnunarinnar, eru að leita að vinnu og geta hafið störf innan tveggja vikna eða hafa fengið vinnu sem hefst innan 3 mánaða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert