Tannlæknafélag Íslands og Tannlæknadeild Háskóla Íslands munu nú á morgun bjóða barnafjölskyldum sem búa við kröpp kjör upp á ókeypis tannlæknaþjónustu. Þjónustan er fyrir börn og unglinga 18 ára og yngri og verður veitt milli kl. 10:00 og 13:00 í húsnæði Tannlæknadeildar Háskóla Íslands, Læknagarði, að Vatnsmýrarvegi 16. Tannlæknar buðu fyrst upp á þessa þjónustu laugardaginn 4. apríl og alls komu yfir 30 börn og unglingar í skoðun, að því er segir í tilkynningu.
„Fjárhagslegar aðstæður margra heimila hafa breyst til hins verra á undanförnum mánuðum og því viðbúið að mörg heimili neyðist til að spara við sig þegar kemur að tannviðgerðum og eftirliti hjá börnum. Þá er tannheilsa íslenskra barna sú versta á Norðurlöndum og íslensk börn eru að meðaltali með tvöfalt fleiri skemmdar tennur en börn á hinum Norðurlöndunum.
Því hafa tannlæknar ákveðið að koma til móts við
þau heimili sem erfiðast eiga uppdráttar með sjálfboðavinnu við skoðun og
viðgerðir tanna hjá börnum og unglingum. Ekki er tekið við tímapöntunum en
ráðstafanir eru gerðar til þess að biðtími verði ávallt hóflegur," samkvæmt tilkynningu.