Eigandi kaskótryggðrar bifreiðar þarf sjálfur að bera tjón sem varð á bílnum í árekstri sem ökumaður bílsins varð valdur að í lok árs 2005. Ökumaðurinn hafði fengið bílinn að láni hjá eigandanum til reynsluaksturs vegna hugsanlegra kaupa.
Reynsluakstrinum lauk með árekstri. Ökumaðurinn gat ekki stöðvað bílinn þegar hann ók norður Kringlumýrarbraut og inn á gatnamót Háaleitisbrautar á móti rauðu ljósi. Hann skautaði á milli akreina, á milli bíla sem stöðvað höfðu á ljósunum en hafnaði á tveimur bílum sem voru að aka yfir gatnamótin eða biðu færis.
Mikið tjón varð á bílunum. Tryggingafélag eiganda ökutækisins greiddi tjón á hinum bílunum, samkvæmt ábyrgðartryggingu, en hafnaði að greiða bætur fyrir tjón á BMW-bíl hans. Það tjón var metið á liðlega 3,4 milljónir kr. Bar tryggingafélagið því við að ökumaður hefði sýnt stórkostlegt gáleysi og undir það tóku allar úrskurðarnefndir sem málið var borið undir.
Héraðsdómur komst að sömu niðurstöðu og sýknaði tryggingafélagið. Taldi dómurinn að af atvikum öllum og framburði vitna væri nægjanlega í ljós leitt að hraðakstur ökumanns bifreiðarinnar hafi valdið því að hann gat ekki stöðvað áður en að gatnamótunum kom. Með því hafi hann sýnt af sér stórkostlegt gáleysi og tryggingafélaginu því verið heimilt að hafna bótakröfu hans.