Fréttaskýring: Ekki rætt um það sem mestu skiptir

Mikill samdráttur hefur verið í íslensku efnahagslífi það sem af …
Mikill samdráttur hefur verið í íslensku efnahagslífi það sem af er ári. Hann hefur verið meiri en ráð var fyrir gert. mbl.is/Golli

Eitt erfiðasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar, að loknum kosningum 25. apríl nk., verður að skipuleggja niðurskurð fyrir næsta fjárlagaár. Líklegt er að talið að skera þurfi niður um 35 til 55 milljarða til þess að vinna á rúmlega 150 milljarða áætluðum halla ríkissjóðs á þessu ári.

Greint var frá því í Morgunblaðinu 11. apríl sl. að íslenska ríkið hefði fengið 30,5% minna í tekjur af veltusköttum fyrstu tvo mánuði ársins en í fyrra. Það samsvarar um 6 milljörðum króna sem er nokkru meira en reiknað var með við gerð fjárlaga.

Ekki síst er að baki hrun í tekjum af vörugjöldum af ökutækjum. Tekjur af þeim voru um 200 milljónir á fyrstu tveimur mánuðum ársins en þær voru 2,5 milljarðar á síðasta ári.

Setja mikilvæg mál á oddinn

Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir brýnt að stjórnmálaflokkar ræði um sértækar lausnir á tveimur vandamálum. Annars vegar hvar eigi að skera niður í ríkisfjármálunum og síðan hvernig stefnan eigi að vera í peningamálum. „Uppbygging bankanna er vitaskuld forgangsmál. En það hefur gleymst, af því er mér finnst, að ræða um hvernig er hægt að ná niður fjárlagahallanum og hvernig er hægt að leysa gjaldeyriskreppuna sem er auðvitað alvarleg. Ef hún leysist ekki hratt geta gjaldeyrishöft orðið langvarandi og valdið miklu tjóni. Það er afar brýnt að stjórnmálaflokkarnir, hverjir sem það eru, setji þessi mál á oddinn og vinni að þeim með öllum ráðum. Með hag landsins til framtíðar í huga,“ sagði Gylfi í samtali við Morgunblaðið í gær.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður Vinstri grænna, hefur svarað því til í Morgunblaðinu að ákvörðun um forgangsröðun í ríkisfjármálum, þar á meðal um niðurskurð í ríkisrekstri, verði verkefni nýrrar ríkisstjórnar að loknum kosningum. Í sama streng hefur forysta Samfylkingarinnar tekið, en báðir flokkarnir leggja á það áherslu að forgangsraðað verði með það í huga að velferðarkerfið verði varið. Það er að niðurskurður nái ekki til mennta-, heilbrigðis- og annarra velferðarmála.

Steingrímur sagði, í samtali við Morgunblaðið í gær, að tekjur ríkissjóðs hefðu dregist mikið saman einfaldlega vegna þess að samdrátturinn í samfélaginu var meiri en búist var við. Hann sagðist hins vegar þokkalega bjartsýnn á að tekjurnar yrðu nálægt áætlun þegar litið yrði á árið í heild. „Mín tilfinning er sú að ástandið sé heldur líflegra í mars og apríl en ætla mætti að yrði miðað við janúar og febrúar. Ég bendi á að hægt hefur á vexti atvinnuleysis og er bjartsýnn á að það muni ekki rjúfa 10% múrinn.“

Steingrímur sagði að tekjur almennings væru að dragast saman og gert hefði verið ráð fyrir því í fjárlögum. „Hversu djúp niðursveiflan verður á enn eftir að koma í ljós, en ég geri mér vonir um að hallinn verði ekki meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum.“

Efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gerir ráð fyrir að ríkissjóður verði rekinn án halla eftir árið 2011. Mikill niðurskurður er því nauðsynlegur á næsta ári og árið þar á eftir.

Óvissa um horfur

„Það er talsverð óvissa um horfur í efnahagsmálum en samt hafa sést batamerki að undanförnu í þeim skilningi að fram er kominn verulegur samdráttur í einkaneyslu frá fyrra ári en hann hefur ekki aukist mikið í febrúar og mars. En horfurnar eru háðar ýmsum óvissuþáttum eins og uppbyggingu bankakerfisins og einnig því hvernig mál þróast á erlendum mörkuðum. Allt þetta getur haft mikil áhrif,“ segir Þorsteinn Þorgeirsson sem stýrir efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Hún fylgist gangi mál í efnahagsmálum. Ríkisfjármálin eru erfið þessa dagana, ekki bara vegna minnkandi tekna heldur einnig vegna aukinna útgjalda, meðal annars í atvinnuleysisbætur. Samkvæmt uppgjöri fyrir fyrstu tvo mánuði ársins námu útgjöld ríkissjóðs 80,5 milljörðum sem er um 33,5 prósent hækkun miðað við árið í fyrra. Meginskýringin á muninum eru íþyngjandi vaxtagreiðslur. Þær námu um 7 milljörðum fyrstu tvo mánuði ársins en 800 milljónum í fyrra.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert