Aðeins 22% íslenskra námsmanna erlendis eru ákveðnir í að snúa aftur heim að námi loknu, skv. könnun á heimasíðu Sambands íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE). 38% segjast ekki ætla að koma aftur heim en 40% eru óákveðin.
Könnunin var sett upp á síðunni um áramót og höfðu 193 svarað henni í gær. Hjördís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri SÍNE, telur efnahags- og atvinnuástandið hafa mest um það að segja hversu fáir hyggjast snúa aftur heim að námi loknu en niðurstöðurnar eru í takt við aðra könnun sem félagið sendi nýverið til sinna félagsmanna. Þar svöruðu 366 spurningu um framtíðaráform sín. Hyggjast 31% snúa aftur heim, 25% ætla sér það ekki en 44% eru óákveðin.