Starfsmenn Suðurverks hafa unnið allan sólarhringinn alla daga ársins við undirbúning Landeyjahafnar. Verkið er á áætlun, samkvæmt upplýsingum Dofra Eysteinssonar framkvæmdastjóra.
Sprengingum í námu á Seljalandsheiði, flokkun grjótsins og flutningi niður að Markarfljóti lýkur um miðjan maí. Samhliða er unnið að lagningu nýs vegar að höfninni, meðal annars með smíði brúar á Ála.
Í kaffitímum má sjá fjölda tækja við kaffiskúrinn. Þegar allt grjótið verður komið í farveg Markarfljóts mun ánni verða veitt austur fyrir hrúgurnar, grjótinu ekið niður sandinn og notað í varnargarða. Gerð verða göng undir Suðurlandsveg til að trukkarnir þurfi ekki að fara yfir þjóðveg.
Þetta er verkefni níutíu starfsmanna Suðurverks næstu mánuðina og unnið að því af sama krafti og hingað til.