Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands og Jóan Pauli Joensen rektor Fróðskaparseturs Færeyja undirrituðu í gær samstarfssamning milli skólanna tveggja til fimm ára.
Í frétt á vef Háskóla Íslands segir að samningurinn feli í sér samvinnu um kennsluefni, upplýsingaefni og útgáfu, starfsmanna- og stúdentaskipti og síðast en ekki síst sameiginleg rannsóknarverkefni og ráðstefnur.
„Fróðskaparsetur Færeyja er háskóli Færeyinga en eins og segir á færeyskri tungu var Fróðskaparsetrið “stovnað í 1965 við tí latínska heitinum Academia Færoensis. Tað vóru limirnir í Føroya Fróðskaparfelag, stovnað í 1952, sum tóku stig til at fáa ein lærdan háskúla í Føroyum.” Fróðskaparsetur Færeyja er staðsett í Þórshöfn.
Þess má geta að færeyski lögfræðingurinn Kári á Rógvi brautskráðist á dögunum með doktorsgráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands.
Hann er einn af frumkvöðlum þess að hafin var kennsla í lögfræði við Fróðskaparsetur Færeyja en þar starfar hann sem fastur kennari. Byrjað var að bjóða doktorsnám við lagadeild Háskóla Íslands fyrir fimm árum og var Kári á Rógvi fyrsti nemandinn.“