Nefnd sem skipuð var til að leita lausna á Icesave-málinu hefur kynnt og rætt ýmsar leiðir til lausnar við stjórnvöld í löndum sem deilan varðar. Þetta kom fram í skriflegu svari Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðfinnu S. Bjarnadóttur alþingismanns á Alþingi í dag.
Fyrirspurn Guðfinnu var um stöðuna í Icesave-viðræðunum og hver „sú hagfellda niðurstaða“ sé sem fjármálaráðherra nefndi m.a. í viðtali í Zetunni á mbl.is nýverið.
Í svari fjármálaráðherrans er minnt á að skipuð hafi verið nefnd til að sjá um samninga tengda Icesave. Hún hafi m.a. kannað mögulegar leiðir til að ganga frá fjárhagslegri hlið þessara mála með þeim hætti að það samrýmist sem best hagsmunum landsins um leið og það uppfyllir þær skuldbindingar sem íslenska ríkið tók á sig í þessum efnum sl. haust.“
Þá hefur verið haft samband við pólitísk og embættisleg stjórnvöld í viðkomandi löndum, þeim kynntar og við þau rætt um ýmsar leiðir til að ganga frá þessum málum. Frekari viðræður við þau fara fram á næstu vikum. Með hliðsjón af stöðunni í viðræðunum þykir ekki rétt að upplýsa frekar um einstök atriði þess sem í umræðu er á milli aðila. Það skal og tekið fram að fjármálaráðherra hefur átt fund með utanríkismálanefnd Alþingis um málið og veitt henni ýmsar upplýsingar um stöðu þess, sem eðli máls samkvæmt eru bundnar trúnaði.“