Umhverfisráðuneytið staðfest ákvörðun Heilbrigðisnefndar Suðurlands um útgáfu starfsleyfis til Lýsis hf. í Þorlákshöfn vegna þurrkunar fiskaafurðar. Ráðuneytið markaði starfsleyfinu þó styttri tíma, átta ár í stað tólf, og gerði ýmsar breytingar á leyfinu, til að koma til móts við kvartanir íbúa.
Meðal þess sem kemur fram í hinu breytta starfsleyfi er að loftræstingu skuli stýrt þannig að hún valdi fólki búsettu nálægt starfssvæðinu eða vegfarendum ekki óþægindum vegna lyktar, hávaða eða annarrar mengunar, eftir því sem framast er unnt og þá skal loftflæðisstreymi í þurrkklefa ávallt stillt með þeim hætti að lyktarmengun sé haldið í lágmarki.
Einnig skal eftirlitsaðili viðhafa virkt eftirlit með starfseminni og leggja sérstaka áherslu á að koma í veg fyrir kvartanir íbúa vegna lyktarmengunar.
Nokkrir íbúar í Þorlákshöfn kærðu ákvörðun Heilbrigðisnefndar Suðurlands um útgáfu starfsleyfisins, en einnig sveitarfélagið Ölfuss. Með fylgdu athugasemdir 530 íbúa sveitarfélagsins.
Í kæru sveitarfélagsins Ölfuss var því mótmælt að starfsleyfið hafi verið veitt þrátt fyrir ítrekaðar kvartanir íbúa og mikla mengun vegna starfseminnar um langa hríð. Í kærum íbúa segir að mikil ýldulykt berist um bæinn og slái niður við hús og stundum innan húsa.
Í ákvörðun ráðuneytisins segir m.a.: „Af fyrirliggjandi upplýsingum vegna málsins er að mati ráðuneytisins ljóst að lyktarmengun frá starfsemi Lýsis hf. hefur verið til staðar í Þorlákshöfn og valdi íbúum óþægindum. Vegna þeirra sjónarmiða sem varða atvinnuhagsmuni manna, sbr. 75. gr. stjórnarskrárinnar og þá verndarhagsmuni laga nr. 7/1998 [...], svo og meðalhófsreglunnar sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þykir lagaforsendur skorta til að fella starfsleyfið úr gildi.“
Valdi ráðuneytið því þá leið að herða kröfur um mengunarvarnir og eftirlit.