Miðborg í sárum góðæris

mbl.is/Júlíus

Húsið á Vatnsstíg 4 sem tekið var pólitískri hústöku er eitt af tugum gamalla húsa sem staðið hafa auð og ónotuð mánuðum saman í miðborg Reykjavíkur. Í gegnum tíðina hafa nágrannar þessara húsa gjarnan kvartað um slæman frágang, umgang eiturlyfjaneytenda o.fl. sem þykir ógna öryggi umhverfisins.

Lögreglan hefur, að sögn Sigurðar Helga Guðjónssonar formanns Húseigendafélagsins, oft verið treg til að skipta sér af þessum umkvörtunum nágranna og sýnt hústökufólki nokkurt umburðarlyndi fram að þessu. Mörgum þótti reyndar nóg um aðgerðir lögreglu nú þegar gripið var til vélsagar og rúðubrota til að ná til hústökufólksins, enda stendur húsið illa leikið eftir og bætir ekki ásýnd miðborgarinnar sem þótti miður falleg fyrir.

Snorri Freyr Hilmarsson, formaður Torfusamtakanna, segir einu leiðina út úr því ófremdarástandi sem skapast hefur í miðborgina vera skýrar áherslubreytingar í aðalskipulagi. „Það þarf að stöðva þetta spádómsniðurrif í miðborginni, því það hefur ekki leitt af sér neina endurnýjun, það eina sem hefur verið gert í gegnum allt þetta þensluskeið er að menn hafa braskað með reiti og sett hús í drabb.“

Að mati Snorra steig Reykjavíkurborg fyrsta skrefið í ógæfuátt þegar sameining lóða var heimiluð. „Þá fer þetta allt í gang, að láta hús viljandi drabbast niður og níðast á nágrönnum.“ Snorri fullyrðir þannig að verktakar hafi gripið til ýmissa ráða til að lækka íbúðaverð á nágrannalóðum og fæla íbúa burt, þ. á m. að leyfa fíklum viljandi að koma sér fyrir á lóðunum og Sigurður Helgi staðfestir að þessum aðferðum hafi sumstaðar verið beitt.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert