Yfir 180 þúsund kvikmyndir og sjónvarpsþættir hafa selt á rúmum mánuði hjá SkjáBíói. Skjárinn efndi til sérstaks tilboð á þáttum og myndum í SkjáBíói og fékk það svo góðar viðtökur að kvikmyndir verða áfram boðnar á góðu verði, samkvæmt frétt frá Skjánum.
„Sjónvarpsáhorf hefur verið að breytast undanfarin ár og með tilkomu
SkjásBíós getur fólk nú pantað sér kvikmyndir og sjónvarpsþætti heima í stofu þegar því hentar. Í boði er bæði efni gegn gjaldi og ókeypis efni. Í upphafi mars buðum við okkar viðskiptavinum tilboð þar sem við stórlækkuðum leiguverð á kvikmyndum og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Það voru pantaðar yfir 180 þúsund kvikmyndir og sjónvarpsþættir í mánuðinum sem er nýtt met hjá okkur. Ef aukningin heldur áfram þá borgar sig fyrir okkur að hækka ekki aftur í gamla verðið heldur bjóða nýjar myndir á 490 kr. og eldri á 390," segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Skjásins i fréttatilkynningunni.
Í SkjáBíói, sem er myndbandaleiga heima í stofu, er hægt að nálgast allar nýjustu kvikmyndirnar með fjarstýringu. Skjárinn er með samninga við öll helstu kvikmyndaverin í Hollywood. Auk nýrra mynda býður SkjárBíó mikið úrval af eldri myndum, sjónvarpsþáttum,
barnaefni og fríu efni, alls yfir tvö þúsund titla.