Ósátt við fyrirætlanir vegna Byggðasafnsins að Görðum

Stjórn Félags íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS)hefur sent bæjarstjóranum á Akranesi bréf þar sem bæjaryfirvöld eru hvött til þess að endurskoða ákvörðun sína varðandi safnkost Byggðasafnsins að Görðum. Til stendur að útvista rekstur og starfsemi safnsins, samkvæmt upplýsingum frá FÍSOS.

„Vakin hefur verið athygli stjórnar FÍSOS (Félags íslenskra safna og safnmanna) á því að til stendur að útvista rekstur og starfsemi Byggðasafnsins að Görðum á Akranesi. Virðist sem ganga eigi til samninga við aðila sem að fyrra bragði leitaði til bæjaryfirvalda og afhenda honum rekstur safnsins án útboðs eða samráðs við fagaðila á sviði safna eins og Safnaráðs og Menntamálaráðuneytis og starfsmenn Byggðasafnsins að Görðum.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem stjórn FÍSOS hefur fengið þá er ætlunin að skilja þá báta sem hafa verið hornsteinn safnkostsins frá honum og þeir verði áfram í umsjá bæjarins – með hvaða hætti er ekki ljóst. Þarna er um óbætanleg menningarsöguleg verðmæti að ræða og mikilvægt að ekki skapist lausung í kringum varðveislu bátanna.
               
Bent er á mikilvægi þess að fylgja góðum stjórnsýsluháttum og bjóða út verkefni af þessari stærð, annað samræmist varla jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.

Stjórn FÍSOS hvetur bæjaryfirvöld á Akranesi til að leita formlega umsagnar fagaðila á borð við Safnaráð um samninginn og ræða efni hans opinberlega áður en hann er undirritaður. Jafnframt hvetur stjórn FÍSOS til þess að rætt sé við starfsfólk Byggðasafnsins um framtíð þess.

Stjórn FÍSOS minnir á að safnkostur Byggðasafnsins að Görðum er einstök menningarsöguleg verðmæti og ekki forsvaranlegt að honum sé teflt í tvísýnu með nokkrum hætti. Það er hlutverk safna að varðveita, rannsaka og miðla safnkostinum – varðveislan vegur þar þungt og verða þeir sem ábyrgð bera á rekstri safna að gera sér grein fyrir því að söfn verður að reka til framtíðar en ekki með stundarhagsmuni í huga."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert