Óttast áhrif sparnaðar í heilsugæslunni

Myndin tengist ekki efni fréttarinnar með beinum hætti
Myndin tengist ekki efni fréttarinnar með beinum hætti mbl.is/ÞÖK

Heilsugæslulæknar hafa áhyggjur af því að grunnþjónusta heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu verði skert um 10-15% á daginn um næstu mánaðarmót vegna niðurskurðar á vinnuframlagi heilsugæslulækna. Telja þeir að þetta muni leiða til þess að þjónusta við bráðveika, þar með talin veik börn, færist í vaxandi mæli á skyndivaktir. 

Fram kemur á bloggsíðu Vilhjálms Ara Arasonar, heilsugæslulæknis í Hafnarfirði að það stingi í stúf að gripið sé til slíkra sparnaðaraðgerða á sama tíma og rætt er um að stefna að skynsamlegri notkun sýklalyfja til að sporna gegn þróun hratt vaxandi sýklalyfjaónæmis helstu sýkingarvalda.

Segir þar að algengasta ástæða þess að leitað sé með börn á heilsugæslustöðvar séu öndunarfærasýkingar og að í alþjóðlegum leiðbeiningum um meðferð loftvegasýkinga sé gengið út frá því að heilsugæslan sé sterk og geti boðið upp á aðgengi samdægurs, fræðslu um sýkingar og eftirfylgd með einkennum.

Sé dregið úr þessum þáttum aukist líkur á því að börnum séu gefin sýklalyf af minnsta tilefni á skyndivöktum. Þar sem Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu hafi verið undirmönnuð af læknum um árabil sé þegar meira um slíkt hér á landi en á hinum Norðurlöndunum.

Bréfi lækna ekki svarað

Fram kemur á síðu Vilhjálms að heilbrigðisráðherra og heilbrigðisnefnd Alþingis hafi verið sent bréf þann 5. febrúrar þar sem fjallað var um málið. Segir þar að þrátt fyrir afleita stöðu Íslands í samanburði við nágrannalöndin í þessum efnum og mikilvægi þess að bregðast strax við vandanum hafi erindinu ekki verið svarað.  Þvert á móti sé ráðgert að skerða dagþjónustu heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu með einhliða varanlegum aðgerðum á kjörum heilsugæslulækna, langt umfram það sem þekkist hjá öðrum opinberum aðilum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert