Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja tók ákvörðun um að loka skurðstofunni í sex vikur í sumar, að sögn Gunnars K. Gunnarssonar, framkvæmdastjóra stofnunarinnar. Lokunin er liður í sparnaðaraðgerðum en stofnunin þarf að spara 70 milljónir á þessu ári.
„Okkur var gert að skera niður um 10% og það var hluti af okkar tillögum að loka skurðstofunni í sex vikur,“ sagði Gunnar. Hann sagði að með lokuninni spöruðust sumarafleysingar upp á um tíu milljónir. Heilbrigðisstofnunin þarf að skera niður í rekstri sem nemur um 70 milljónum á þessu ári. Framlög til stofnunarinnar lækkuðu um 5-6% frá fyrstu umræðu um fjárlög auk þess var 4% framúrkeyrsla á síðasta ári sem þarf að mæta.
Gunnar sagði að krafan um niðurskurð hafi komið frá heilbrigðisráðuneytinu og heilbrigðisstofnunin gert tillögur um hvernig við honum yrði brugðist. Tillögurnar hafi verið lagðar fyrir ráðuneytið og það lagt blessun sína yfir þær. Frekara samþykkis ráðuneytisins þyrfti ekki við.
Skurðstofunni verður lokað frá byrjun júní og fram í miðjan júlí. Á því tímabili verður öll önnur heilbrigðisþjónusta til staðar, önnur en skurðstofuþjónusta. Þetta þýðir m.a. að fæðingar flytjast frá Eyjum meðan á lokuninni stendur. Gunnar sagði að áætlaðar væru 5-6 fæðingar á þessu tímabili.
Ef þörf verður á skurðstofuþjónustu á þessum tíma þarf að senda sjúklinginn til Reykjavíkur. Gunnar sagði að samningur væri um sjúkraflug við Flugfélag Vestmannaeyja sem kveður á um að alltaf sé sjúkraflugvél í Vestmannaeyjum. Gunnar sagði að þegar tekin sé ákvörðun um sjúkraflug frá Eyjum líði yfirleitt um klukkustund þar til sjúklingurinn er kominn inn á Landspítala.
Aðrar sparnaðaraðgerðir felast aðallega í því að dregið er úr starfshlutfalli nær allra starfsmanna um 5%. Einnig er sparað í minni mæli í mörgum liðum. Gunnar sagði að með þessum aðgerðum ætti rekstur stofnunarinnar að vera því sem næst í samræmi við fjárlög í árslok, svo fremi sem allt verðlag fari ekki úr böndunum.
Gunnar taldi að fólk myndi helst finna fyrir lokun skurðstofunnar, reynt yrði að láta annan sparnað koma sem minnst við þá sem njóta þjónustu stofnunarinnar.