Engin svör fengist frá ráðuneytinu

Vestmannaeyjar.
Vestmannaeyjar. mbl.is/Brynjar Gauti

Uggur er í Vestmannaeyingum og mikil umræða þeirra á meðal vegna mögulegrar lokunar skurðstofu Heilbrigðisstofnunarinnar í bænum um sex vikna skeið í sumar. Elliði Vignisson bæjarstjóri segir að engin skýr svör hafi fengist frá heilbrigðisyfirvöldum um skurðstofulokunina.

Elliði sendi í gær tölvubréf til Ögmundar Jónassonar heilbrigðisráðherra og starfsmanna í ráðuneytinu og fór fram á svör. „Ég hef engin svör fengið frá ráðuneytinu, hvorki hósta né stunu,“ sagði Elliði. Hann sagði bæjarbúa leita mikið til bæjaryfirvalda og fullyrði að búið sé að taka ákvörðun um skurðstofulokunina. Vestmannaeyjabær hafi hins vegar ekki fengið neinar upplýsingar um það. Elliði sagði um meira en orðróm að ræða.

„Ófrískar konur hafa þegar verið látnar undirbúa það að þurfa að eiga sín börn í Reykjavík í sumar. Auðvitað óttumst við að þetta séu skilaboð sem við eigum að fá eftir kosningar,“ sagði Elliði.

Það eru ekki einungis fæðingar sem krefjast þess að skurðstofan sé opin, að mati Elliða. „Bæði atvinnulíf okkar og ferðaþjónusta eru þess eðlis. Hér er stunduð hættulegasta atvinnugreinin og staðhættir þannig að það er ekki alltaf hægt að komast til Reykjavíkur með litlum fyrirvara. Þetta er úrslitaþjónusta. Við eigum bágt með að trúa því að þessi ákvörðun verði tekin. Heilbrigðisráðherra kom hér á fund og lýsti því yfir að tekið yrði tillit til sjónarmiða heimamanna.“

Vel á annað þúsund hefur ritað nöfn sín á Facebook síðu þar sem mögulegri lokun skurðstofunnar er mótmælt. Einnig hefur fjöldi fólks, líklega einnig vel á annað þúsund, skrifað á lista með mótmælum sama efnis sem liggja víða frammi í Vestmannaeyjum. 

Elliði Vignisson bæjarstjóri.
Elliði Vignisson bæjarstjóri. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert