Varar við fjárhagsstöðu Century

Frá vinnu á framkvæmdasvæði álvers Norðuráls í Helguvík.
Frá vinnu á framkvæmdasvæði álvers Norðuráls í Helguvík. mbl.is

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði við umræður um samninga vegna Helguvíkurálvers á Alþingi í dag, að fjárhagsstaða móðurfélags Norðuráls, Century Aluminium, færi versnandi og líkur væru á að það gæti ekki staðið undir skuldbindingum sínum.

Umræður standa nú yfir um heimild vegna fjárfestingarsamnings um álverNorðuráls í Helguvík. Álfheiður benti m.a. á að álverð hefði lækkað um helming á einu ári. Century Aluminium hefði þegar lokað einu álveri í Bandaríkjunum. Félagið hefði tapað 900 milljónum bandaríkjadala á seinasta ári og Moody's hefði lækkað lánshæfismat Century úr B2 í CAA3. Minnti hún á afleiðingar þess þegar lánshæfismat íslensku bankanna var lækkað á sínum tíma úr A í B. „Það eru talsverðar líkur á því að fyrirtækið geti ekki staðið undir skuldbindingum sínum,“ sagði hún.

Þá hefðu hlutabréf í félaginu hríðfallið að undanförnu. Vakti hún athygli á því að fjárfestingarsamningurinn við íslensk stjórnvöld hljóðaði upp á 16,2 milljónir dollara. „Hann er væntanlega metinn sem verðmæt eign hins erlenda félags og getur þess vegna eftir atvikum runnið til kröfuhafa eða gengið kaupum og sölum eins og aðrar eignir,“ sagði Álfheiður.

Hvatti hún einnig ráðherra að bíða með málið þar til álit Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) liggur fyrir á þeim ríkisstuðningi sem í samningnum felst.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra sagði í andsvari við ræðu Álfheiðar að samningurinn verði ekki staðfestur fyrr en úrskurður ESA liggur fyrir.

Össur fjallaði einnig um fjárhagsstöðu álfyrirtækisins og sagði að Norðurál hefði verið skuldlaust við lánardrottna á árinu 2008. Hvort fyrirtækið yrði fjárvana og myndi framselja réttindi sagði Össur að skýrt væri kveðið á um það í samningnum að á byggingartíma álversins væri óheimilt að framselja réttindi og skyldur til annarra nema allir aðilar samningsins samþykki það, þ.m.t. ríkið.

 „Háttvirtur þingmaður bendir réttilega á að sú staða gæti komið upp að kröfuhafar myndu taka verkefnið yfir til að tryggja efndir gagnvart lánasamningum. Ef að sú staða kemur upp, þá er það rétt hjá háttvirtum þingmanni, að það yrði heimilt að framselja þessi réttindi, en um þetta framsal yrði að gera sérstakan samning sem ríkið verður að eiga aðild að. Ég tel að það sé ákaflega ólíklegt að slíkt framsal yrði gert í óþökk ríkisins,“ sagði Össur. 

Frumvarpið var lagt fram af iðnaðarráðherra en fyrir liggur, að þingmenn VG og nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar eru því andvígir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert