Vilja bjarga Skuggahverfi

Snorri Freyr Hilmarsson formaður Torfusamtakanna segir að örlög Skuggahverfisins séu aftur komin í hendur ríkisins með gjaldþroti viðskiptajöfra sem hafi keypt upp gömul hús í miðbænum til að rífa þau niður og byggja ný. Samson Propertys hefur óskað eftir leyfi til að rífa mörg gömul hús, milli  Hverfisgötu og Lindargötu.  Þá hafa margir aðrir verktakar og viðskiptamenn, stundað spákaupmennsku með lóðir og fest kaup á húsum í hverfinu í góðærinu í von um að þar verði verðmætar byggingalóðir.

Snorri Freyr segir að breyta þurfi aðalskipulagi til að komast úr þessum ógöngum. Mollvæðingin hafi verið að teygja sig upp í gamla bæinn og borgaryfirvöld hafi gefið tóninn með sameiningu lóða. Nú sé til að mynda horft til Veghúsastígs og menn hafi viljað rífa þar hús.

Varðveislugildi þessa hluta miðbæjarins sé alls ekki minna en grjótaþorpsins. Það séu mörg gömul, falleg og söguleg hús í hverfinu. Menn hafi mikið talað niður Hverfisgötu en Það ljótasta þar séu í raun nýleg hús sem enginn hafi óskað eftir að rífa.

 Hann undrast skjót viðbrögð lögreglu sem rýmdi á dögunum gamalt hús á Vatnsstíg þar sem hústökufólk hafði tekið sér bólfestu. Hann segir íbúa í Skuggahverfi og Þingholtunum mátt búa við að verktakar láti hús standa opin og hleypt þangað inn útigangsfólki. Menn segi þetta tæki verktaka til að ná niður verði og flýta fyrir niðurrifi.  Þetta hafi vakið íbúum í nágrenninu ótta en kvartanir hafi ekki borið mikinn árangur. Þarna hafi hinsvegar ekki verið á ferðinni dópistar en lögreglan hafi verið mjög snögg að hreinsa út. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert