Baðst afsökunar á mistökum bankans

Ásmundur Stefánsson.
Ásmundur Stefánsson.

Ásmundur Stefánsson, bankastjóri Nýja Landsbankans, baðst afsökunar á þeim mistökum sem bankinn gerði fyrir hrun í ræðu sem hann flutti á starfsdegi bankans í morgun. Þetta kom fram í fréttum Útvarpsins.

Ásmundur sagðist  fyrir hönd bankans vilja biðja íslenskt samfélag afsökunar á hlutdeild bankans í þeim vanda sem þjóðin standi frammi fyrir.

Ríkisútvarpið hafði eftir Ásmundi, að hraðinn í gamla bankaumhverfinu hefði verið of mikill. Hlaupið hefði verið í fjármögnun á skuldsettum yfirtökum án þess að farið hefði verið í saumana á öllum forsendum. Framvirkir samningar hefðu gengið lengra en að vera vörn gegn áhættu. Þeir hafi orðið að veðmáli um þróun gjaldmiðla. Verklagsreglur hefðu oft á tíðum verið viðmiðun frekar en fyrirmæli.

Hann sagði mikilvægt að stjórnendur og starfsmenn nýja bankans væru ekki í feluleik. Þeir gætu ekki skorast undan því að axla ábyrgð á mistökum fortíðarinnar. Það væri eina leiðin til að ná sáttum við umhverfið að nýju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert