Samband garðyrkjubænda ákvað á aðalfundi á föstudag að skrifa ekki undir samning við landbúnaðarráðherra um niðurskurð á greiðslum til bænda og jafnframt um framlengingu á búvörusamningum, að því er kemur fram á fréttavefnum Suðurlandinu.is.
Bændasamtök Íslands skrifuðu í dag undir breytingar á gildandi samning um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu og sauðfjárræktar. Verður stuðningur við bændur skertur á þriggja ára tímabili en samningurinn er jafnframt framlengdur um tvö ár. Steingrímur J. Sigfússon, landbúnaðarráðherra, sagði í dag að að með þessu samkomulagi sé stigið mikilvægt skref í átt til þjóðarsáttar um nauðsynlegar aðgerðir til að takast á við þá erfiðu tíma sem þjóðin gengur nú í gegnum.
Haft er eftir Bjarna Jónssyni, framkvæmdastjóra Sambands garðyrkjubænda, á Suðurlandinu.is, að ekki geti verið um þjóðarsátt að ræða þegar ósamið sé við einn aðila af þremur. Garðyrkjubændur vilji fyrst fá afdráttarlausa yfirlýsingu um að hætt verði við fjórðungs hækkun á rafmagni sem fyrrverandi landbúnaðarráðherra ákvað.
Bjarni segir að ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar, fyrrverandi ráðherra, um breytingar á niðurgreiðslu rafmagns hafi þýtt 25% hækkun á rafmagni frá 1. febrúar síðastliðnum. Í vikunni hafi garðyrkjubændur verið að fá fyrstu reikningana eftir breytingarnar og hafi þeir ekki treyst sér til að skrifa undir nýjan búvörusamning við ráðuneytið fyrr en hætt yrði við rafmagnshækkunina.
Bjarni segir þolinmæði garðyrkjumanna á þrotum en þeir fóru fram á það í
vikunni að fá afdráttarlausa yfirlýsingu um að ekki kæmi til hækkunar
rafmagnskostnaðar. Hann segir fjórðungs hækkun koma mjög illa við
garðyrkjufyrirtæki þar sem framlegð sé mjög lág.
Framkvæmdastjóri Sambands garðyrkjubænda segir að garðyrkjubændur séu tilbúnir til þjóðarsáttar um landbúnaðinn verði komið til móts við kröfur þeirra. Hann treystir á það að málið verði leyst eftir helgi.