MP Banki hefur hætt við að kaupa hluta af útibúum SPRON og Netbankann nb.is á 800 milljónír króna. Margeir Pétursson, stjórnarformaður MP banka, segir að Nýja Kaupþingi hafi tekist að hindra kaupin með samkeppnishindrandi aðgerðum.
Fjármálaeftirlitið (FME) birti síðdegis í gær ákvörðun þess efnis að skilanefnd SPRON, sem hafði selt útibúin og nb.is, væri óheimilt að ráðstafa eignum SPRON nema með samþykki FME. Margeir segir að sú ákvörðun hafi gert útslagið.
„Eftir að hún var tekin þá var ljóst að þetta mál verður tafið von úr viti og þá í sjálfu sér er vörumerkið ónýtt. Úr því sem komið er verður betra að hefja viðskiptabankaþjónustu undir eigin formerkjum.“
MP banki ætlaði að ráða 45 fyrrum starfsmenn SPRON til starfa í útibúunum ef af kaupunum yrði. Margeir segir að af því verði ekki.
„Við munum standa við samninga við þá starfsmenn sem þegar voru komnir til okkar. Það eru sex starfsmenn og mjög gott að fá þá. En það er sorglegt að hafa haldið 40 manns til viðbótar í óvissu. Það er hins vegar ekki við okkur að sakast í því máli. Þetta mál tefur okkar áform um einn til tvo mánuði. Við spörum okkur auðvitað heilmikla peninga á þessu, en hefðum fengið mikið í staðinn fyrir þá. Við hefðum fengið mjög þjálfað starfsfólk og staðsetningar sem viðskiptavinirnir þekkja. Þarna stendur líka búnaður fyrir milljónatugi ónotaður. Við vildum kaupa hann en fáum það ekki vegna samkeppnishindrandi aðgerða Nýja Kaupþings. Ætli við þurfum ekki að kaupa nýjan búnað til landsins frá grunni. Búnaðurinn í þessum útibúum SPRON mun þá rykfalla þar.“
Kaup MP banka á eignum SPRON voru háð samþykki FME. Það samþykki hafði dregist í marga daga vegna þess að Seðlabankinn skilaði ekki inn umsögn sinni um málið. Bankinn óttaðist að Kaupþing gæti ekki staðið af sér flótta fyrrum viðskiptavina SPRON yfir í sín gömlu útibú.