Takist ekki að hefja aðildarviðræður um Evrópusambandið í haust missa Íslendingar af lestinni og fá ekki inngöngu fyrr en í fyrsta lagi 2016 eða 2017. Þetta er mat Aðalsteins Leifssonar, sem sat á vegum Samfylkingarinnar í nefnd ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks um þróun Evrópumála.
Hann sagði að í ferð nefndarinnar til Brussel í september á síðasta ári hafi komið fram að mikil þreyta væri gagnvart stækkun í Evrópusambandinu. Króatía ætti nú í aðildarviðræðum og búist væri við að landið gengi inn í sambandið seint á árinu 2011 eða snemma árs 2012. „Síðan hafa leiðtogar stærstu aðildarríkja sagt það klárt og skýrt að beðið verði með frekari stækkun þar til eftir 2015.“ Ísland ætti möguleika á að fylgja Króötum inn í sambandið.
Ágúst Ólafur Ágústsson, Samfylkingu, hnykkti einnig á að sóknarfæri lægju í því að Svíar færu fyrir sambandinu seinna hluta þessa árs og vert væri að hefja viðræður á meðan þeir gegndu því hlutverki.
Illugi Gunnarsson, Sjálfstæðisflokki, benti þá á að áhugavert væri að vita hvort tími ynnist til að hefja aðildarviðræður starfaði Samfylkingin með Vinstrihreyfingunni – grænu framboði eftir kosningar. Árni Þór Sigurðsson, fulltrúi VG, sagði útilokað á þessum tímapunkti að segja til um hvort tækist í tíma að ná samkomulagi um hvernig standa ætti að aðildarviðræðunum. Það þyrfti að ræða í upphafi nýs kjörtímabils.
Ljóst er að engar breytingar verða á stjórnarskránni á þessu þingi en þær þarf eigi landið að ganga í Evrópusambandið. Ágúst Ólafur, sem hverfur af þingi við kosningar, segir nauðsynlegt að næsta kjörtímabil verði ekki fjögur ár heldur skemmra. „Við köllum þá til kosninga eftir að við erum búin að ljúka aðildarviðræðum og jafnvel búin að ljúka þjóðaratkvæðagreiðslu um þann samning. Því það er mitt mat að við getum hafið þessa vinnu án þess að vera búin að breyta stjórnarskránni.“