Lögreglan hefur lagt hald á slönguhraðbát sem þrír menn komu með til Djúpavogs fyrir nokkrum dögum og notuðu við fíkniefnasmygl. Lögreglan stöðvaði einn þremenninganna í nótt á hringveginum, rétt við afleggjarann að Höfn. Hann var á suðurleið með fíkniefnin í jeppa, samkvæmt heimildum mbl.is.
Nákvæmar upplýsingar um magn fíkniefnanna sem lagt var hald á liggja líklega ekki fyrir fyrr en á morgun, samkvæmt upplýsingum lögreglunnar.
Mennirnir munu hafa sagt fólki á Djúpavogi að þeir hafi keypt bátinn af banka nýverið. Þeir sögðust vera áhugamenn um köfun og ætla að stunda köfun í nágrenninu. Aldrei sáust þó köfunarbúningar nálægt bátnum en athygli vakti að um borð voru nokkrir stórir bensínbrúsar líkt og löng sigling væri fyrir höndum.