Skjólveggur sem reistur var utan um brunarústirnar á horni Lækjargötu og Austurstrætis féll og fauk laust fyrir hádegið. Veggurinn lenti á fjórum bílum sem stóðu í Austurstræti. Borgarstarfsmenn voru kallaðir út og fjarlægðu vegginn. Bílarnir rispuðust en skemmdust ekki mikið, að sögn lögreglunnar.
Víðar hefur orðið tjón vegna foks í dag. Þannig fauk trampolín á bíl við Galtarlind í Kópavogi um hádegi og olli skemmdum. Um eittleytið fauk dót á bíl við Kirkjustétt og braut í honum rúðu. Þó nokkrar tilkynningar höfðu borist lögreglunni um fok á ýmsu dóti.
Að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum hafa henni einnig borist tilkynningar um fok á lausum munum í hvassviðrinu.