Ökuferð gestkomandi manns í Vestmannaeyjum í september í fyrra endaði ekki vel. Hvorttveggja var að maðurinn tók bílinn traustataki og að auki var maðurinn undir áhrifum vímuefna enda lauk bíltúrnum með því að bíllinn rakst tvívegis utan í umferðarmerki.
Þegar lögregla yfirheyrði manninn viðurkenndi hann að hafa stolið bílnum og að hafa ekið ölvaður. En þegar maðurinn kom síðan fyrir Héraðsdóm Suðurlands nýlega neitaði hann því að hafa verið ölvaður en hefði hins vegar verið undir áhrifum lyfsins Tafil.
Dómur yfir manninum féll í dag og þar var hann dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir nytjastuld og akstur undir áhrifum lyfja. Hins vegar sagðist dómarinn ekki geta sakfellt manninn fyrir ölvunarakstur þar sem hvorki var tekið blóð- né þvagsýni úr honum þegar hann var handtekinn.
Þá var rúmlega hálfrar milljónar króna bótakröfu bíleigendans vísað frá dómi. Ástæðan var sú, að bíleigendann mætti ekki við þingfestingu málsins.
Og fleira gleymdist við meðferð málsins því í ákærunni var aðeins gerð krafa um að maðurinn yrði dæmdur til refsingar en ekki um greiðslu sakarkostnaðar. Því sá dómarinn sér ekki annað fært en að dæma ríkið til að greiða þóknun lögmanns mannsins, 100 þúsund krónur, auk 13.058 króna fyrir akstur, allt að meðtöldum virðisaukaskatti.