Ólíklegt er að finnskar herþotur muni á næstunni sjást fljúga yfir Íslandi. Blaðið Helsingin Sanomat hefur eftir heimildarmönnum í finnska stjórnkerfinu, að efnahagslegar, pólitískar og lagalegar ástæður séu fyrir því að Finnar myndu ekki taka þátt í hugsanlegri samnorrænni loftrýmisgæslu á Íslandi.
„Slíkt væri of langt gengið. Þótt við hefðum efni á því myndu pólitískar spurningar vakna," hefur blaðið eftir ónefndum heimildarmanni.
Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, lagði m.a. til í skýrslu um norræn öryggismál, sem kynnt var í febrúar, að Norðurlöndin sæju sameiginlega um loftrýmisgæslu á Íslandi. Sú gæsla er á vegum NATO en hvorki Svíþjóð né Finnland eru aðilar að Atlantshafsbandalaginu.
Ekki er búist við að finnsk stjórnvöld bregðist opinberlega við skýrslu Stoltenbergs fyrr en í maílok eftir fund öryggismálaráðs finnsku ríkisstjórnarinnar og forseta Finnlands. Utanríkisráðherrar Norðurlandanna munu ræða skýrsluna á fundi í Reykjavík 9. júní.
Loftrýmisgæslan er á vegum NATO samkvæmt samkomulagi, sem gert var við íslensk stjórnvöld. Helsingin Sanomat hefur eftir heimildarmönnum, að NATO sé ekkert sérlega umhugað um að lönd, utan bandalagsins, sjái um slíka gæslu.