Finnar vilja ekki taka þátt í loftrýmisgæslu á Íslandi

Danskar F-16 orrustuflugvélar sinntu nýlega loftrýmisgæslu á Íslandi á vegum …
Danskar F-16 orrustuflugvélar sinntu nýlega loftrýmisgæslu á Íslandi á vegum NATO og fylgdu m.a. rússneskri sprengjuþotu eftir.

Ólíklegt er að finnskar herþotur muni á næstunni sjást fljúga yfir Íslandi. Blaðið Helsingin Sanomat hefur eftir heimildarmönnum í finnska stjórnkerfinu, að efnahagslegar, pólitískar og lagalegar ástæður séu fyrir því að Finnar myndu ekki taka þátt í hugsanlegri samnorrænni loftrýmisgæslu á Íslandi.

„Slíkt væri of langt gengið. Þótt við hefðum efni á því myndu pólitískar spurningar vakna," hefur blaðið eftir ónefndum heimildarmanni. 

Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, lagði m.a. til í skýrslu um norræn öryggismál, sem kynnt var í febrúar, að Norðurlöndin sæju sameiginlega um loftrýmisgæslu á Íslandi. Sú gæsla er á vegum NATO en hvorki Svíþjóð né Finnland eru aðilar að Atlantshafsbandalaginu. 

Ekki er búist við að finnsk stjórnvöld bregðist opinberlega við skýrslu Stoltenbergs fyrr en í maílok eftir fund öryggismálaráðs finnsku ríkisstjórnarinnar og forseta Finnlands. Utanríkisráðherrar Norðurlandanna munu ræða skýrsluna á fundi í Reykjavík 9. júní. 

Loftrýmisgæslan er á vegum NATO samkvæmt samkomulagi, sem gert var við íslensk stjórnvöld. Helsingin Sanomat hefur eftir heimildarmönnum, að NATO sé ekkert sérlega umhugað um að lönd, utan bandalagsins, sjái um slíka gæslu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert