Lopapeysan er líklega þekktust og þægilegust hefðbundins íslensks fatnaðar og hafa vinsældir hennar aukist til muna undanfarin ár.
Hópur nema við Háskóla Íslands hefur sett á stofn nýstárlegt fyrirtæki, sem býður viðskiptavinum að hanna sína draumapeysu á netinu og fá hana senda heim til sín. Vefsíða fyrirtækisins er peysanmin.com.
„Þetta kom þannig til að við erum nokkur á námskeiði í verkfræðideild HÍ, sem heitir Stjórnun fyrirtækja. Við fengum það verkefni að stofna sjálfstætt fyrirtæki og eftir nokkra umhugsun duttum við niður á þessa hugmynd,“ segir Elvar Þór Hjörleifsson. Ásamt Elvari eru aðstandendur Peysunnar minnar þau Eymundur Sveinn Leifsson, Gunnar Skúlason, Kristín Björg Sveinsdóttir, Maren Lind Másdóttir, Ómar Þorvaldur Kristinsson og Teitur Birgisson.